Tuesday 4 March 2014

Hestapeysan hennar Önnu

Það er af sem áður var að ég væri aðeins með eina flík á prjónunum í einu. Núna hika ég ekki við að vera með margar í einu, illu heilli stundum. Þetta leiðir nefnilega því miður stundum til þess að ég verð svo hræðilega lengi með sumt. Svoleiðis var til dæmis með peysuna sem ég var að prjóna núna síðast.

Ég tók að mér að prjóna peysu fyrir Önnu vinkonu mína eftir uppskrift frá Ístex. Hún valdi hestapeysu. Strax og ég las uppskiftina sá ég að prjónastærðin myndi ekki henta mér til að ná prjónfestunni sem upp var gefin. Ég byrjaði því á að finna mér minni prjóna. Svo breytti ég uppskriftinni þannig að hún passaði á þann sem hún var ætluð á. Það er auðvitað svo oft þannig að það þarf að aðlaga uppskriftir.


Litirnir sem Anna valdi voru blátt, grátt og svart. Hún vildi hafa svarta hesta og gráa peysu. Hestarnir komu ágætlega út en ég þurfti að vefja bandið ansi mikið til að ekki yrðu allt of langir endar á bakhliðinni. Ekki það fljótlegast sem ég hef gert. En sem betur fer ákvað ég að gera þetta enda hefði ég aldrei orðið sátt við mjög langa enda á bakhlið peysunnar. Mér finnst nefnilega að bakhliðin eigi ekki bara að vera ásættanleg heldur líka þannig að ég getir verið það ánægð með hana að ég sé tilbúin til að sýna þá hlið einnig. Þess vegna geng ég alltaf fallega frá endum og passa að það sjáist ekki hvar þeir eru.

Þegar ég kom upp að munsturbekknum, löngu eftir að ég fitjaði upp, fannst mér að munsturhlutinn yrði allt of dökkur ef ég sneri bara litum uppskriftarinnar við þannig að ég ákvað að sleppa neðsta bekknum og halda áfram að prjóna grunninn ljósan.


 
Og talandi um tímalengd, það tók mig þrjár vikur frá því ég lauk við bol og ermar að byrja á axlastykkinu. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki prjónað neitt þann tíma, nei nei. Ég bara fann mér ekki tíma í akkúrat þessa peysu. Heldur prjónaði bara lítil stykki eins og vettlinga og sokka sem ég ætla að sýna ykkur síðar.

Og svo var peysan þvegin og hengd út á snúru - grín - auðvitað lagði ég hana á stykki og þurrkaði hana þannig eftir að þvottavélin var búin að sjá um þvottinn fyrir mig. En í dag fleygði ég henni út á snúru rétt á meðan ég festi hana á filmu, eða þannig sko, við notum víst fæst filmur í dag.


Og allt er gott sem endar vel og á morgun fær hún Anna mín peysuna sína og vonandi verður hún ánægð með hana.

.

4 comments:

  1. Flott peysa og gaman að lesa bloggið þitt

    ReplyDelete
  2. Móeiður Ágústsdóttir4 March 2014 at 22:04

    flott peysa,þekki þetta stundum á ég erfitt með að halda áfram með stykki;) og er með alltof margt í takinu í einu ;)

    ReplyDelete
  3. Góðan daginn.Þetta er flott síða hjá þér og gaman að lesa hana.þetta munstur hef ég prjónað oft og finnst það þungt.En ekkert mál að breyta þessu eins og maður vill.Segi sama með margt í gangi í einu en það er bara betra.Kveðja Hjördís

    ReplyDelete


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.