Monday 31 March 2014

Blessuð kýrin, blekkingarprjón



Nú er komið að lokaverkefninu í blekkingarprjóninu og ekki seinna vænna þar sem nú er komið að mánaðarlokum og blekkingarþemanu þar með að ljúka. Myndin sem nú er prjónuð er heldur flóknari en rendurnar sem áður hafa birst hér á blogginu. Ég bjó til munstur sem getur verið skemmtilegt í eitt og annað. Hægt er að prjóna púðaborð eða borðtusku eða setja myndina hreinlega sem skraut framan á peysu.


Myndir sem prjónaðar eru með blekkingarprjóni eru ekki sjáanlegar nema frá ákveðnu sjónarhorni. Þegar  horft er beint framan á prjónið sjást bara rendur en þegar sjónarhorninu er breytt kemur blekkingin í ljós.

Þegar þú prjónar munstrið er gott að nota prjónamerki þar sem láréttu rauðu strikin eru í munstrinu. Einnig er gott að hafa reglustiku til að setja fyrir ofan línuna sem verið er að prjóna eða eitthvað annað sem hjálpar til við að fylgja munstrinu. 


Ef þú skoðar myndina vel sérðu að það myndar rendur. Hluti af  hverri rönd og oft meginhlutinn myndar garð en stundum er röndin líka slétt. Mundu að hver umferð í munstrinu sýnir eina slíka rönd þ.e, tvær umferðir í sama lit. Fyrri umferðin er alltaf prjónuð slétt í þeim lit sem garðurinn er í en í seinni umferðinni er munstrið á myndinni prjónað.

Ég prjóna eftir munstrinu frá hægri til vinstri, í sömu átt og ég prjóna þar sem ég er vönust því frá öðrum prjónauppskriftum. Við það speglast myndin. Þeir sem ekki vilja speglun í myndina þurfa að lesa  hana frá hinni áttinni þar sem munstrið er prjónað frá röngu. Myndin af kúnni er þó nánast eins báðum megin við miðju svo í þessu tilviki skiptir speglunin alls engu máli.

Munsturteikningin



Svona gerir þú fyrstu umferðirnar

Þegar þú prjónar þetta munstur áttu að prjóna 2 umferðir í einu með hvorum lit, þ.e. einn garð (garður er þó oft með sléttum lykkjum. sbr. umf. 2 og margar fleiri). Hvítur litur í munstrinu táknar að prjónuð er brugðin lykkja en hann táknar ekki nýjan lit.

Allar oddatölur í munstrinu sýna umferðir sem prjónaðar er með ljósari litnum. Þær eru litaðar gráar í munstrinu. Sléttu tölurnar í munstrinu sýna umferðir sem prjónaðar eru með dekkri litnum. Þær hafa ávallt svartan flöt einhvers staðar í munstrinu.

Þegar umferðin er öll einlit eins og umferð 1 er prjónað svona. 1. fyrri umferð garðsins er ávallt slétt prjón sama hvernig munsrið á teikningunni er. Í umferðinni sem prjónuð er til baka er lituð lykkja prjónðu slétt en hvít lykkja prjónuð brugðin.

Þú fitjar upp með ljósa litnum 52 lykkjur og snýrð við.
1. garður..  Með dekkri litnum prjónar þú 1 slétta umferð. 
2. umf.  Snúðu við og prjónaðu 6 brugðnar, 1 slétta, 8 brugðnar, 1 slétta, 17 brugðnar, 1 slétt, 13 brugðnar, 1 slétt, 4  brugðnar. 

Þegar stykkinu er lokið er gaman að skoða hvernig myndin kemur í ljós á bakhliðinni.
 




No comments:

Post a Comment


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.