Friday 28 June 2013

Salómonshnútur

Ég var að taka til í tölvunni minni og fann þá þessar myndir af Salómonshekli. Það er orðið nokkuð langt síðan ég tók myndirnar og skrifaði uppskriftirnar. Í rauninni var þetta bara gleymt. En þegar ég rakst á það datt mér í hug að einhver vildi nýta sér þetta og því set ég það inn í bloggfærslu í dag.

Salómonshekl, er líka kallað Salómonshnútur. Einnig ber heklið nafnið Hnútur elskendanna þar sem hann er svo fallega tengdur saman. Hægt er að hekla þetta hekl í ferhyrntum flötum en einnig í þríhyrning. Það er tiltölulega auðvelt að hekla eftir þessari aðferð.


Salómonshnútur




1. Dragðu lykkjuna sem er á nálinni upp í þá lengd sem þú vilt hafa á henni (t.d. 2 cm).
2. Sæktu bandið.
3.  Dragðu bandið í gegnum lykkjuna.
4.    Stingdu heklunálinni á milli löngu lykkjunnar og bandsins fyrir aftan. Sæktu bandið.
 6. Sæktu bandið aftur og dragðu það í gegnum báðar lykkjurnar. Nú hefur myndast fastapinni í lykkjunni. 
7. Endurtaktu þar til réttum fjölda er náð 

8.  Þegar þú heklar til baka stingur þú nálinni inn í litla hnútinn sem er milli löngu lykkjanna og gerir þar fastapinna. Teldu 3 langar lykkjur og gerðu síðan fastapinna í hnútinn á milli 3 og 4 löngu lykkju. 


Langsjal/trefill




Fitjaðu upp 2 loftlykkjur. Gerðu fastapinna í 1. loftykkjuna. Heklaðu síðan salómonshnútakeðju. Fylgdu leiðbeiningum 1-7 þar til þú ert búin að endurtaka munstrið 21 sinni. Þá ertu komin með 21 langa lykkju og 22 hnúta (hnútar eru bæði í upphafi og enda keðjunnar og því einum fleiri en lykkjurnar). Ef þú vilt hafa sjalið breiðara bætir þú við tveimur munstrum eða fjölda sem er margfeldi af tveimur. Snúðu við.



Heklaðu fastapinna í 4. hnútinn, talið frá heklunálinni (sjá leiðbeiningar 8). *Heklaðu tvö munstur í viðbót með því að endurtaka leiðbeiningar 1-7 tvisvar sinnum. Hoppaðu yfir 2 munstur (1 hnút og tvær langar lykkjur) og gerðu fastapinna í næsta hnút.* Endurtaktu frá * til *  þar til þú ert komin út á enda. Síðasti fastapinninn kemur í hnútinn sem myndaðist þegar þú gerðir fyrsta fastapinnann upphafi umferðarinnar. Snúðu við.



Heklaðu 3 munstur með því að endurtaka leiðbeiningar 1-7 þrisvar sinnum. Heklaðu fastapinna í fyrsta hnút umferðarinna. *Heklaðu 2 munstur, hoppaðu yfir tvö munstur og heklaðu fastapinna í næsta hnút.*  Endurtaktu frá * til *  þar til þú ert komin út á enda.



Endurtaktu síðustu umferð þar til réttri lengd er náð á treflinum/sjalinu.




Hyrna 

1. umf. Byrjaðu á 2 loftlykkjum og einum fastapinna í fremri loftlykkjuna. Gerðu þá salómonshnútakeðju, alls fjögur munstur og tengdu í hring með fastapinna. (Snúðu við)

2. umf. Gerðu 3 munstur og tengdu með fastapinna í 3. hnút frá uppfiti. *Gerðu 2 munstur og tengdu með fastapinna* í 2. hnút frá uppfiti. Gerðu eitt munstur og tengdu með fastapinna í lykkjuna sem er samsíða þessari. (Snúðu við).

3. umf. og áfram: Gerðu 3 munstur og tengdu með fastapinna í fyrsta hnút umferðarinnar (sá sem skagar fyrst upp). *Gerðu 2 munstur og tengdu með fastapinna.* Endurtaktu frá * til * þar til þú ert komin út á enda.  Gerðu þá þrjú munstur og tengdu. Gerðu eitt munstur og tengdu með fastapinna í lykkjuna sem er samsíða þessari. (Snúðu við).





Þú getur fundið myndband sem sýnir þér heklið hér.
Svo finnur þú sýnikennslu í kjólahekli með Salómonshnút hér.

Tuesday 11 June 2013

Rósir

Ég er svo sem ekki mikið fyrir að skreyta með blómum neman lifandi blómum. En samt kemur það fyrir að ég hekla blóm. Um daginn lagðist ég í rósahekl því ég þurfti rós til að gefa vinkonu minni til að merkja töskuna sína með áður en hún legði af stað til útlanda. Rósin sem ég heklaði var ekki bara falleg í einfaldleika sínum heldur var líka ótrúlega fljótlegt og auðvelt að gera hana.

Ég fann mér bleikt garn og hófst handa. Til að gera rós þurfti að hekla 2 loftlykkjur fyrir hvert blað á krónunni.  Fyrst fitjaði ég upp 30 loftlykkjur af því að ég vildi hafa 15 blöð á henni og svo bætti ég við 4 loftlykkjum til að og allt gengi nú upp á þann hátt sem ég vildi.

Í fyrri umferðinni byrjaði ég að hekla 1 stuðul, 2 loftlykkjur og 1 stuðul í 5. loflykkjuna frá heklunálinni. * Svo hoppaði ég yfir 1 loftlykkju og gerði 1 stuðul, 2 loftlykkjur og 1 stuðul, allt í næsta gat*. Þetta endurtók ég svo út umferðina (*-*) og endaði á að gera 1 loftlykkju og snúa við. Í lokin var ég komið með loftlykkjubogana 15 sem ég lagði upp með að hafa. 



Í seinni umferðinni * heklaði ég 7 stuðla í hvern loftlykkjuboga (þ.e. í kringum hverjar 2 loftlykkjur) og 1 fastapinna í gatið milli stuðlanna*. Þetta endurtók ég í öllum 15 bogunum og endaði svo á 1 fastapinna.


Svo var bara að rúlla stykkinu upp og sauma það saman að neðan svo rósin héldi lagi. Ég rúllaði því upp þannig að rangan sneri út.

Svo heklaði ég einföld laufblöð til að hafa hjá rósinni. Laufblöðin eru bara 2 umferðir eins og rósin sjálf. Fyrst fitjaði ég upp 11 loftlykkjur og svo sneri ég við og heklaði til baka.

Í fyrri umferðinni heklaði ég 1 keðjulykkju, 1 fastapinna, 1 hálfstuðul, 4 stuðla, 1 hálfstuðul, 1 fastapinna, 1 keðjulykkju. Svo gerði ég 1 loftlykkju og sneri við.

Seinni umferðin er spegilmynd af hinni fyrri og því gerði ég allt eins og í henni. 

Nú var rósin tilbúin, bara eftir að hekla á hana band og binda um ferðatösku vinkonu minnar.

Og hér er rósin komin á ferðatöskuna og henni ekkert að vanbúnaði að leggja af stað í ferðalagið.

Friday 7 June 2013

Múrsteinahúfan - frí uppskrift



Ég hef búið til nokkuð margar uppskriftir frá því ég byrjaði á því. Þessar uppskriftir hafa bæði verið af peysum, húfum, vettlingu, sokkum og líka af ýmsu öðru. Uppskriftirnar hef ég selt á síðu prjónakistunnar og þú getur skoðað þær hér.
Stundum hef ég haft uppskriftirnar fríar og birt þær hér í blogginu. Í dag ætla ég að birta uppskrift að húfu sem ég gerði upphaflega sem samprjónsverkefni í Prjónakistunnni.

Múrsteinahúfa


Stærð 47 (53) cm

Áætluð garnþörf:
Steinbach Wolle - Sport
1 dokkur í aðallit
1 dokka í munsturlit

Prjónar og heklunál
Hringprjónn nr. 5, 40 cm
auk sokkaprjóna í sömu stærð.
Heklunál nr. 4.

Prjónafesta

15 lykkjur = 10 cm í sléttu prjóni. Kannaðu prjónfestu til að spara tíma
  

Aðferð

Húfan er prjónuð í hring, lykkjur er síðan teknar upp og eyrun prjónuð.

Húfa - Uppskriftin

Fitjaðu upp  70 (80) lykkjur með aðallit á 40 cm  hringprjón nr. 5. Tengdu saman í hring.

1.- 6 .umf: Prjónað með aðallit. Slétt prjón út umferðina.

7. umf: Prjónað með munsturlit. *Taktu 2 lykkjur óprjónaðar af prjóninum, farðu í þær eins og þú værir að prjóna brugðið (frá hægri til vinstri). Prjónaðu 8 sléttar lykkjur*; endurtaktu frá *til* út umferðina.

8.-11. umf: Prjónað með munsturlit. *Taktu 2 lykkjur óprjónaðar af prjóninum. Prjónaðu 8 brugðnar lykkjur*; endurtaktu frá *til* út umferðina.

12.-14. umf: Prjónað með aðallit. Slétt prjón út umferðina.

15. umf: Prjónað með munsturlit. Prjónaðu 5 sléttar lykkjur. *Taktu 2 lykkjur óprjónaðar af prjóninum. Prjónaðu 8 sléttar lykkjur*; endurtaktu frá *til* að síðustu 5 lykkjunum, taktu 2 óprjónaðar og prjónaðu 3 sléttar.

16.-19. umf: Prjónað með munsturlit. Prjónaðu 5 brugðnar lykkjur. *Taktu 2 lykkjur óprjónaðar af prjóninum. Prjónaðu 8 brugðnar lykkjur*; endurtaktu frá *til* að síðustu 5 lykkjunum, taktu 2 óprjónaðar og prjónaðu 3 brugðnar.

20.-22. umf: Prjónað með aðallit. Slétt prjón út umferðina.

23.-27. umf: Eins og 7.-11. umferð.

28.-37. umf: Hér eftir er húfan eingöngu prjónuð með aðallit. Slétt prjón út umferðina.

38. umf: *Prjónaðu 11 (13) lykkjur, taktu 1 óprjónaða lykkju af prjóninum, prjónaðu 2 lykkjur saman, steyptu óprjónuðu lykkjunni yfir.* Endurtaktu frá *til* út umferðina.

39-40. umf: Slétt prjón út umferðina.

41. umf: Eins og umf. 38 nema nú eru lykkjurnar sem prjónaðar eru í upphafi og milli úrtaka tveimur færri.

42-43. umf: Slétt prjón út umferðina.

44. og áfram: Frá og með þessari umferð er tekið út í annarri hverri umferð og því aðeins prjónuð ein slétt umferð á milli úrtökuumferða. Þegar 10 lykkjur eru eftir á prjónunum slítur þú frá og dregur bandið í gegn.
Ath: Skiptu yfir i sokkaprjóna þegar lykkjurnar eru orðnar of fáar fyrir hringprjóninn.

Eyru  

 Lykkjuskiptingin á húfunni  13 (16) L (bak) 17 (19) L (eyra) 23 (26) L (fram) 17 (19) L (eyra)


Eyrun eru prjónuð fram og til baka, slétt á réttu en brugðið á röngu. Fyrsta lykkja umferðar er ávallt prjónuð brugðin en sú síðasta slétt.

Taktu upp 19 lykkjur með sokkaprjóni 8 lykkjum frá uppfiti (þ.e. 8 lykkjum frá miðju að aftan).
1. umf: (bakhlið) Prjónaðu fyrstu lykkjuna brugðna og síðustu lykkjuna slétta en að öðru leyti brugðið út umferðina.

2. umf: (fram) Fyrsta lykkjan er brugðin. Prjónaðu slétt prjón út umferðina.

3.-5. umf. Endurtaktu 1.-2. umf.

6.umf: Prjónaðu 2 lykkjur, taktu 1 lykkju óprjónaða, prjónaðu næstu  lykkju, steyptu óprjónuðu lykkjunum yfir, prjónaðu þar til 4 lykkjur eru eftir af umferðinni; prjónaðu 2 lykkjur saman og endaðu á 2 sléttum lykkjum.

7.umf: Eins og 1. umf.

8.umf og áfram: Endurtaktu umf. 6 og 7 þar til 7 lykkjur eru eftir á prjóninum. Prjónaðu þá 2 lykkjur, taktu 2 óprjónaðar fram af, prjónaðu 1 lykkju og steyptu þessum 2 óprjónuðu yfir. Dragðu bandið í gegn og hertu að.

Farðu eins að við hitt eyrað og athugaðu að það eru 23 (26) lykkjur á framstykkinu milli eyrnanna og 13 (16) lykkjur á milli á bakhluta húfunnar.


Heklaður kantur

Heklaðu fastapinna  hringinn í kringum húfuna með einföldu bandi. Gott er að hekla ekki of þétt, (1,5 lykkjur á milli) og fara niður í aðra lykkju til að fá sem stærsta fastapinna.

Fléttur
Klipptu 6  bönd í hvorum lit 60 - 70 cm löng af munstur- og aðallit fyrir hverja fléttu. Dragðu böndin í gegnum eyrun neðst á húfunni  (u.þ.b. 1 cm ofan við kant) þannig að þau verði jafnlöng báðum megin og einnig í húfukollinn. Skiptu böndunum á hverjum stað í þrennt og fléttaðu þau. Gerðu hnút á bandið neðarlega og jafnaðu endana. 

Breytingar á stærðum:

Ef þú vilt breyta stærðinni á húfunni og gera hana minni eða stærri þarftu að huga að eftirfarandi:
¨ Munstrið byggir á 10 lykkjum og því þarf að fækka eða fjölga um 10 lykkjur í uppfiti.
¨ Ef húfan er minnkuð gæti þurft að minnka dýptina á húfunni með því að fækka umferðum í upphafi og eftir munstur en fjölga ef hún er stækkuð.

 
Frágangur
Gakktu frá endum og húfan er tilbúin til notkunar. Upplagt er samt að fóðra húfuna með mjúku flísefni til að gera hana ennþá hlýrri. Þá leggur þú húfuna á efnið og sníður eftir henni. Ekki gera ráð fyrir saumfari þar sem innri húfan þarf að vera heldur minni en sú ytri. Saumaðu flísefnið  við í höndunum við heklaða kantinn.