Sunday 13 May 2012

Púði og teppi

Þær sem mikið prjóna kannast við vandamálið að sitja uppi með mikið af garnafgöngum sem erfitt getur verið að finna not fyrir. Auðvitað er hægt að nýta afgangana í munstur á peysum og til að prjóna skrautlega sokka, vettlinga eða húfur. Svo er líka hægt að prjóna úr þeim púða. 

Einu sinni prófaði ég að gera púða úr afgangslopa. Ég teiknaði upp munstur sem var fljótlegt að prjóna og ótrúlega einfalt. Til að gera það svolítið flottara setti ég gráa rönd í miðjuna á því og hafði svo ólíka liti sitt hvorum megin við miðjuna. 


Púði 35x35 cm

Efni og áhöld:
60 cm hringprjónn nr. 6
50 gr dökkrauð samkemba nr. 1427
50 gr svartur nr. 0059
25 gr ljósmóleitur nr. 1038
25 gr dökkgrár nr. 9103

Prjónafesta: 13 lykkjur = 10 cm.

Fitjaðu upp 90 lykkjur með tvöföldum svörtum Plötulopa á prjóna nr. 6. Tengdu í  hring og prjónaðu slétt prjón næstu 15 cm. Prjónaðu því næst mustrið. Þegar því lýkur prjónar þú með rauðu þar til lengdin á stykkinu er orðin 35 cm. Lykkjaðu saman framhlið og bakhlið í lokin þegar réttri lengd er náð.

Þegar þú ert búin að ganga frá endum skaltu þvo púðaverið, setja það í þeytivindu og leggja á stykki. Þegar það er orðið þurrt setur þú púðann inn í það og lykkjar saman opið. Passaðu að uppahafslykkjurnar að ofan og neðan standist á.

Sniðugt getur verið að útfæra uppskriftina og prjóna einnig teppi eftir henni til að leggja yfir sig þegar kúrt er fyrir framan sjónvarpið, já eða til að vefja um sig á köldu sumarkvöldi í útilegunni. Það er einfalt að gera teppið með því að fjölga lykkjunum í 180 og bæta við 2 lykkjum að auki fyrir kantinn. Þú ferð eins að og við púðann. Prjónaðu teppið í hring en hafðu fyrstu og síðustu lykkjuna brugðna til að auðvelda þér að taka það í sundur í lokin. Teppið verður með þessu móti 140 cm breitt. Prjónaðu einn eða fleiri munsturbekki í teppið og skiptu um liti eins oft og þú vilt. Láttu smekkinn og afgangana sem þú átt ráða ferðinni. Í lokin saumar þú í saumavél 2 beina sauma í brugðnu lykkjurnar og klippir á milli og þar með er komið teppi. Heklaðu síðan utan um teppið með fastapinnum, krabbahekli eða hverju öðru því hekli sem þú kýst. Einfaldara getur það varla verið.
 
Svo er bara spurning hvort þið hugmyndaríku konur sem lesið þetta blogg getið ekki fundið ennþá fleiri leiðir til að nota munstrið.

Þeir sem vilja kíkja á uppskriftirnar mínar sem ég er með til sölu geta skoðað þær á hér.

Wednesday 9 May 2012

Ljósberi - peysa með litskiptingu

Það er vægt til orða tekið að mér finnist gaman að prjóna. Fyrir mér er prjónaskapur í rauninni bæði ástríða og árátta. Ég prjóna á hverjum degi, byrja reyndar hvern dag á prjóni áður en ég fer í vinnuna, finnst ég bara verða að grípa prjónana þegar ég sest niður með kaffibollann á morgnana.
En mér finnst líka gaman að skapa. Oftast fæðist ný hugmynd í kollinum á mér áður en ég lýk við þá sem ég fékk síðast. Kannski er það einmitt þess vegna sem ég þarf alltaf að flýta mér með hverja flík. Ég verð einfaldlega að komast í að prjóna þá næstu áður en hugmyndin týnist úr kollinum á mér. Þess vegna óska ég þess oft að ég væri meiri hraðprjónari en ég er.

Um daginn lauk ég við að prjóna annað eintakið af þeirri peysu sem ég hannaði síðast. Ég prjónaði ermarnar á föstudaginn, bolinn á laugardaginn, munstrið á sunnudaginn og svo heklaði ég kantinn og gekk frá endum daginn þar á eftir. Á meðan ég prjónaði hannaði ég í huganum næstu flík. Og nú er ég svooooo spennt að byrja á henni.
 
Þótt þetta væri annað eintakið af nýju peysunni var það ekki vegna þess að ég væri ekki sátt við það fyrra, síður en svo. Mig langaði bara svo í peysu sem væri í stíl við kuldaskóna mína, þessa sem eru á myndinni. Helst vildi ég peysu sem væri í sama lit og þeir en það gekk ekki þar sem liturinn á skónum fer mér engan veginn. Ég ákvað því að byrja peysuna á skólitnum og tóna hann niður í ljósari tón eftir því sem ofar kæmi. Þannig yrði ég komin með alveg ljósan lit fyrir munstrið.
 
Í mittinu er ég með stroff sem myndar tígulaga munstur (eða næstum því), bæði í hliðum og á baki. Svo hafði ég munstur neðan á peysunni og á ermunum sem er öðruvísi en það sem áður hefur sést hjá mér. Útkoman er flík sem er vissulega svolítið öðruvísi en hefðbundin lopapeysa.

Fallega konan á myndunum er samkennari minn. Þær eru svo huggulegar konurnar sem kenna með mér og ég svo heppin að þær skuli vilja vera í fyrirsætuhlutverki fyrir mig. 

En það er af peysunni að segja að allt frá því ég prjónaði hana hef ég gengið í henni og er virkilega ánægð með útkomuna.


Ef þig langar að prjóna þessa peysu þá er hægt að fá þessa uppskrift keypta hjá mér. Hafðu bara samband við mig prjonauppskriftir@gmail.com




Saturday 5 May 2012

Gatasnar og takkakantur


Gatasnar er orð sem er notað um gatarönd í prjónuðu stykki. Gatasnar er gert á þann hátt að til skiptis eru prjónaðar saman tvær lykkjur og slegið bandi á prjóninn til að mynda nýja lykkju í stað þeirrar sem fer.

Gatasnar er hægt að nota á ýmsan hátt, t.d. til skrauts og til að gera takkakant eins og ég ætla að segja frá hér. Takkakantur getur verið mjög fallegur framan á ermum og neðan á peysum, sérstaklega á barnapeysum. 

Þegar takkakantur er gerður er byrjað á að prjóna nokkra sentimetra af sléttu prjóni, gjarnan á prjón sem er hálfu númeri minni en sá sem nota á í flíkina sjálfa. Þannig er komið í veg fyrir að kanturinn verði of víður. Sniðugt er að nota heklað uppfit eða uppfitið sem sést í myndbandinu í lok þessarara greinar til að fá lifandi lykkjur. Þegar kanturinn er kominn í þá lengd sem þykir hæfilegt fyrir innbrotið er gatasnar gert yfir umferðina og prjónuð ein umferð áður en skipt er um prjónastærð og farið í hálfu númeri stærra. 


Þegar búið er að prjóna jafnlangt báðum megin við gataröðina (gatasnar) eru lykkjurnar frá uppfitinu settar á sér prjón. Í umferðinni þar á eftir eru prjónaðar saman lykkjur úr fyrstu umferðinni og lykkjurnar sem eru á prjóninum, ein af hvorum stað. Með þessu móti gengur þú frá kantinum um leið og þú prjónar. 


Kanturinn er flottur frá réttunni og útkoman á röngunni er sérlega flott og ekkert þarf að sauma niður eins og þarf ef ekki er notað uppfit sem gefur lifandi lykkjur.

Á þessu skemmtilega myndbandi sem sjá má hér getur þú séð ennþá betur hvernig farið er að því að gera kantinn og um leið getur þú lært mjög skemmtilega og fljótlega aðferð til að búa til lifandi lykkjur.

Wednesday 2 May 2012

Skellibjalla

SkellibjallaFyrir löngu síðan þegar ég var skólastelpa fannst mér ekkert jafn leiðinlegt í skólanum og handavinnan. Það var í rauninni alveg sama hvað ég átti að gera og hversu skemmtilegur kennarinn í rauninni var, mér leiddist bara að þurfa að vera í handavinnutímum. Skyldustykkin fannst mér ótrúlega ljót og hallærisleg og undraðist stöðugt furðulegan smekk þeirra sem réðu. Ég sé reyndar þegar ég lít til baka að stykkin voru kannski ekki jafn slæm og mér fannst þau þá og sem betur fer lærði ég töluvert á þessum tíma.

Strax og ég fékk einhverju um það ráðið hætti ég í handavinnu. Valdi að fara bóknámsleiðina til þess eins að losna við þessa leiðinda handavinnu. Og nú gat enginn pínt mig lengur til að vinna þessi ömurlegu handavinnu.
Nú myndi sá sem ekki þekkir mig segja að þar með hljóti samleið mín og handavinnunnar hafa verið að fullu  lokið. En það var öðru nær. Ég var varla hætt í skólahandavinnuni þegar ég tók mig til og rakti upp peysurnar og annað sem ég hafði prjónað og heklað í skólanum. Og þá hófst loks alvöru handavinnukafli hjá mér. Ég heklaði nefnilega forláta ömmudúlluteppi úr öllum afgöngunum. Hrikalega flott teppi sem ég átti lengi eða allt þar til ég lánaði óskilvísum frænda mínum það.

Hekltímabilið hjá mér varð nokkuð langt. Ég hafði lært sem lítil stelpa að hekla hjá henni Siggu á loftinu og sjálfsagt tók hún ekki eftir því að stelpa hélt á heklunálinni á sinn hátt og alls ekki eins og handavinnukennarar vildu. En það kom aldrei að sök. Eftir 16 ára aldurinn var ég kolfallin fyrir hekli. Ég keypti mér nokkur sænsk heklblöð og skildi hvorki upp né niður í þeim í fyrstu en með hjálp myndanna lærði ég að skilja táknin. Ennþá finnst mér best að hekla uppá á sænsku. Í þessum blöðum voru fjölmargir fallegir dúkar og þá heklaði ég í miklu magni í öllum regnbogans litum. Sem betur fer heklaði ég einnig úr ólituðu garni því þessir lituðu urðu heldur leiðigjarnir eftir því sem árin liðu og nú eru þeir lituðu sem betur fer allir glataðir.

En svo tók prjónatímabilið við hjá mér. Ég prjónaði mestmegnis úr lopa vegna þess að ég hafði einfaldlega ekki efni á öðru. Reyndar slæddist með ein og ein peysa úr einhverju ódýru garni. Norskt ullarband var í miklu uppáhaldi en ég hafði bara sjaldnast efni á því. Akrílið varð því gjarnan fyrir valinu. Það brakaði í því þegar ég prjónaði og ég fékk oft gæsahúð því þetta hljóð fór í mig. Stundum þurfti að teygja akrílbandið áður en maður prjónaði úr því til að það færi ekki fjandans til við þvott. Þá voru hljóðin verst.

Sjálfsagt hef ég alltaf hannað peysur því ég studdist mjög sjaldan við uppskriftir. En í þá daga kölluðum við það ekki að hanna heldur að prjóna út í loftið eða að prjóna upp úr sér. Margar skemmtilegar flíkur litu dagsins ljós á þessum árum. Ég man t.d. eftir einni peysu sem ég gerði úr tvöföldum lopa með munstri úr norsku ullarbandi. Hún var æði. Munstrið í henni var bæði prjónað og einnig saumað í hana. En því miður finn ég hvergi mynd af henni. Kannski er það bara ágætt. Stundum eru minningarnar nefnilega flottari og betri en raunveruleikinn.
Fyrir nokkru lauk ég við uppskrift að peysu sem ég prjónaði út í loftið síðastliðið sumar þegar ég var í sveitinni hjá dóttur minni. Eins og allar uppskriftir fékk þessi nafn og kallast Skellibjalla

Peysan var prjónuð á litla ömmuskottu sem vildi fá peysu úr fallega bleika lopanum sem amma hafi tekið með sér í sveitina. Við ákváðum svo í sameiningu hvernig peysan ætti að vera eða að minnsta kosti svona í stórum dráttum. Svo byrjaði amma að prjóna. Eftir því sem peysunni miðaði áfram ákvað sú stutta að á henni ætti að vera álfahetta. Þetta lét amma auðvitað eftir henni. Hvað annað? Peysan er þægileg í alla staði enda hefur hún Birna mín notað hana mjög mikið. Myndirnar í þessu bloggi eru af ömmuskottunni minni peysunni sinni.

En allt um það. Nú hætti ég þessu rausi – í bili að minnsta kosti.

En ef þig langar að eignast uppskriftina að Skellibjöllu getur þú fengið hana keypta á 500 krónur. Hafðu samband við mig á prjonauppskriftir@gmail.com

Kveðja, Guðbjörg Dóra